Enski boltinn

Sakho kærir lyfjaeftirlitið vegna mistaka sem eiga að hafa kostað hann ferilinn hjá Liverpool

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Mamadou Sakho kom til Liverpool árið 2013. Hann var seldur til Palace í ágúst 2017 eftir að hafa verið seinni hluta tímabilsins 2016-17 á láni hjá Palace
Mamadou Sakho kom til Liverpool árið 2013. Hann var seldur til Palace í ágúst 2017 eftir að hafa verið seinni hluta tímabilsins 2016-17 á láni hjá Palace vísir/getty
Fyrrum Liverpool-maðurinn Mamadou Sakho ætlar að kæra alþjóðlega lyfjaeftirlitið WADA fyrir að hafa eyðilagt feril sinn hjá Liverpool með mistökum í lyfjaprófi.

Sakho var dæmdur í tímabundið bann frá fótbolta í apríl 2016 eftir að það fundust ólögleg lyf í sýni sem tekið var eftir leik í Evrópudeildinni gegn Manchester United.

Þrjátíu daga bann Sakho þýddi að hann missti af úrslitaleik Evrópudeildarinnar við Sevilla og kom í veg fyrir að hann yrði valinn í franska landsliðið fyrir EM 2016. EM var haldið í Frakklandi það ár og fóru Frakkar alla leið í úrslitaleikinn.

Þegar UEFA tók málið fyrir var Frakkinn hins vegar sagður saklaus. Það kom í ljós að efnið sem mældist í Sakho, higenamine, var ekki á bannlista.

Varnarmaðurinn, sem er nú á mála hjá Crystal Palace, vill fá 13 milljónir punda frá WADA þar sem að mati Sakho og lögfræðinga hans er þetta mál er ástæða þess að tíma hans hjá Liverpool lauk.

WADA heldur því hins vegar fram að þetta mál hafi ekkert haft með það að gera að hann var seldur frá Liverpool. WADA sagði agavandamál og slæmt samband við Jurgen Klopp hafa verið þar að baki.

Við það að fara frá Liverpool til Crystal Palace varð Sakho af miklum tekjutækifærum því þar sem „þó Palace sé virt félag í ensku úrvalsdeildinni er það ekki með sama orðspor á heimsvísu og Liverpool,“ sagði lögfræðingur Sakho.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×