Enski boltinn

Pochettino ósáttur við að skuldinni sé skellt á hann þegar leikmenn ná ekki árangri

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Mauricio Pochettino
Mauricio Pochettino
Mauricio Pochettino, knattspyrnustjóri Tottenham, segist ekki sáttur við að hann þurfi að taka alla ábyrgðina þegar leikmenn sem koma til félagsins ná ekki þeim árangri sem ætlast er til af þeim.

Á þeim fimm árum sem Pochettino hefur verið hjá Tottenham hafa flestir leikmenn sem komu inn náð að sanna sig. Einn þeirra sem gerði það ekki var Vincent Janssen en hann gekk til liðs við mexíkóska félagið Monterrey frá Tottenham í vikunni. Í ljósi brotthvarfs Janssen spurðu blaðamenn Pochettino út í árangurinn í leikmannakaupum.

„Ég held að þegar þið segið að ég nái góðum árangri þegar ég fæ inn leikmenn þá sé það ekki satt,“ sagði Pochettino á blaðamannafundi fyrir leik Tottenham og Manchester United í International Champions Cup.

„Það er félagið sem fær til sín leikmenn, ekki Mauricio. Stundum fær mitt álit að vega meira en annarra og stundum hefur mitt álit minni áhrif.“

Stjórnarformaðurinn Daniel Levy og Steve Hitchin, yfirnjósnari Tottenham, koma báðir að leikmannakaupum ásamt Pochettino.

„Mér finnst það vera þannig að þegar leikmenn koma inn og ná góðum árangri fáum við allir hrós, en þegar þeir ná ekki árangri þá er það stjóranum að kenna.“

Leikur Tottenham og Manchester United er í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport á morgun, fimmtudag, og hefst útsending klukkan 11:25.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×