Mike Pence, varaforseti Bandaríkjanna, kemur til Íslands þann 4. september næstkomandi. Í tilkynningu frá Hvíta húsinu kemur fram að varaforsetinn muni meðal annars ræða hernaðarlegt mikilvægi Íslands. Formaður Samfylkingarinnar segir utanríkisráðherra skulda útskýringar um hvort að heimsókn varaforsetans tengist hundruða milljóna króna uppbyggingu á varnarsvæðinu á Keflavíkurflugvelli.
Guðlaugur Þór Þórðarsson, utanríkisráðherra, greindi frá því í hádegisfréttum Bylgjunnar þann 7. ágúst að ef af heimsókn Pence yrði myndu efnahags- og viðskiptamál vera efst á baugi.
Í tilkynningu á vef Hvíta Hússins í dag kemur fram að auk efnahags- og viðskiptamála muni varaforsetinn ræða hernaðarlegt mikilvægi Íslands og átak Atlantshafsbandalagsins gegn ágangi Rússlands á norðurslóðum.
Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, telur að koma varaforsetans geti tengst fyrirhugaðri uppbyggingu varnarmannvirkja á Keflavíkurflugvelli. Hundruðum milljóna verður varið í verkefnið. Logi segir utanríkisráðherra skulda útskýringu á því hvort að málin tvö séu fyrirboði um aukna þátttöku Íslands í varnarsamstarfinu.
„Síðan kemur þessi mjög háttsetti maður hingað til lands og Guðlaugur Þór segir að það eigi að ræða viðskipti og efnahagsmál á meðan að Hvíta húsið gefur út yfirlýsingu um að það eigi sérstaklega að ræða mjög mikilvæga landfræðilega stöðu Íslands. Það er ekkert hægt að lesa þetta öðruvísi en að það sé verið að fara að tala þarna um aukna þátttöku okkar í varnarsamstarfinu.“
Logi vill að málið verði rætt á vettvangi utanríkismálanefndar þingsins.
„Já, ég hef bæði beðið um fund með utanríkisráðherra á vegum nefndarinnar um áformin uppi á Keflavíkurflugvelli en síðan núna, eftir þessi síðustu útspil, að ráðherra komi líka og gefi munnlega skýrslu um komu Mike Pence hingað til landsins.“
Segir utanríkisráðherra skulda útskýringar um heimsókn Pence
Tengdar fréttir
Pence kemur til Íslands degi síðar en fyrst var tilkynnt
Mike Pence, varaforseti Bandaríkjanna, kemur til Íslands þann 4. september næstkomandi, ekki þann 3. september eins og fyrst var greint frá á vefsíðu Hvíta hússins.
Hvíta húsið staðfestir Íslandsför Mike Pence
Mike Pence, varaforseti Bandaríkjanna, mun koma í opinbera heimsókn hingað til lands þann 3. september næstkomandi. Þetta kemur fram á vef Hvíta hússins.
Segir komu Mike Pence til Íslands hreina og klára vanvirðingu
Samtökin '78 munu ekki sitja undir því þegjandi verði Mike Pence, varaforseta Bandaríkjanna, boðinn velkominn hingað til lands af stjórnvöldum.