Enski boltinn

Hetja Chelsea gegn Norwich var tvo tíma í lyfjaprófi og missti af fluginu til London

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Abraham skoraði tvö mörk gegn Norwich City, þ.á.m. sigurmarkið.
Abraham skoraði tvö mörk gegn Norwich City, þ.á.m. sigurmarkið. vísir/getty
Tammy Abraham var hetja Chelsea þegar liðið vann 2-3 sigur á Norwich City í ensku úrvalsdeildinni á laugardaginn. Abraham skoraði tvö mörk í þessum fyrsta sigri Chelsea á tímabilinu.

Abraham missti hins vegar af fluginu frá Norwich til London því hann var svo lengi að klára lyfjapróf eftir leikinn.

Framherjanum gekk illa að skila þvagprufu og tókst það ekki fyrr en tveimur klukkutímum eftir leik. Þá voru samherjar hans komnir í loftið.

Um 30 stiga hiti var í Norwich þegar leikurinn fór fram í hádeginu á laugardaginn sem gæti skýrt af hverju Abraham gat ekki kastað af sér þvagi.

Abraham var þó ekki skilinn eftir í Norwich og fékk far með starfsmönnum Chelsea aftur til London.

Mörkin gegn Norwich voru þau fyrstu hjá Abraham á tímabilinu. Frank Lampard, knattspyrnustjóri Chelsea, virðist hafa mikla trú á hinum 21 árs Abraham sem skoraði grimmt þegar hann lék sem lánsmaður með Aston Villa í B-deildinni á síðasta tímabili.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×