Þessi ömurlegi maður
Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, er ein þeirra sem ekki sparar stóru orðin í nýlegri færslu á Facebook. Henni þykir Pence óalandi og óferjandi:„Ég hvet fólk til að sýna hvorki skilning né þolinmæði vegna lokana, tafa eða annars uppnáms sem að koma Mike Pence, stríðæsingamanns og mannhatara veldur. Ég hvet fólk til að láta í heyra sér með öllum mögulegum hætti til þess að þessi ömurlegi maður og þær manneskjur sem í alvöru trúa því að ekkert skipti máli nema viðskiptahagsmunir, að ekkert skipti máli nema greddan í að græða fái í það minnsta skilaboð um að "gildismat" þeirra valdi viðbjóði og andstyggð hjá sæmilega normölu fólki.“
Þær eru sem sagt býsna kaldar kveðjur sem Pence fær frá verkalýðsforingjanum.
Líklegt má teljast að þau hjá Bandaríska sendiráðinu, sem starfa við að þýða yfir á ensku svona það helsta sem sagt er um Bandaríkin og bandarísk yfirvöld og senda til frekari athugunar þar á bæ, munu þurfa að taka á honum stóra sínum þegar þau hafa þetta eftir í skýrslu.
Ofstækis- og ofbeldismaður
Gunnar Smári Egilsson, blaðamaður og stofnandi Sósíalistaflokks Íslands er skoðanabróðir Sólveigar Önnu, í þessu sem og mörgu öðru. Hann sendir Pence tóninn á sinni Facebooksíðu:„Má ég benda á hið augljósa; sjö klukkustunda hingaðkoma þessa ofstækismanns og boðbera andmannúðarstefnu og ofbeldis gagnvart minnihlutahópum og smærri þjóðum er ekki þess virði,“ segir Gunnar Smári. Og heldur áfram:
„Segið honum að enginn sé heima og leyfið fólki að fara leiðar sinna í friði.
Það er ekki bara að maðurinn hafi ekkert gott fram að færa (hann er í kompaníi með þeim sem eru að brjóta niður allt það skásta sem enn var til í Bandaríkjunum) heldur hefur hann aðeins illt fram að færa; vill kaupa stuðning veiklyndra stjórnvalda við illar ráðagerðir hættulegustu stjórnvalda í heiminum í dag. Pence er einn af þeim sem maður á að forðast að heilsa, alls ekki maður sem þú átt að bjóða heim til þín. Hver sem dregst inn í veröld hans mun skaðast.“
Ætti kannski að sleppa því að koma í heimsókn
Gunnar Smári lætur greinilega komu Pence trufla sig nokkuð því hann bætir við: „Ógleðisakstur hommahatarans fær fleiri götum lokað en gleðiganga hinsegin fólks. Hvað er það? Erum við komin þangað?“Gunnar Smári og Sólveig Anna eru ekki þau einu sem hafa horn í síðu Pence. Þau virðast, ef litið er til viðbragða og annarra sem hafa tjáð sig, tala fyrir hönd margra.
Guðmundur Andri Thorsson þingmaður Samfylkingar er rithöfundur og kann að gæta tungu sinnar. En ljóst má þó vera að honum er ekkert um manninn gefið og segir á sinni Facebook-síðu: „Maður sem ekki treystir sér til að heimsækja land án þess að þurfa að lýsa yfir neyðarástandi í því landi ætti kannski að sleppa heimsóknum til annarra landa.“
Guðmundur Andri hafði áður skrifað sérstakan pistil og tilefnið er koma Pence og segir hann varaforsetann öfgamann. Séra Bjarni Karlsson skrifar einnig pistil og leyfir sér að efast um að í brjósti hans spretti kristileg kærleiksblómin.
Aðför gegn einkabílnum
Egill Helgason sjónvarpsmaður er á svipuðum nótum og Guðmundur Andri og furðar sig á viðbúnaðinum: „Fjölda stórra gatna er lokað, er slík hætta á ferðinni eða er fyrst og fremst verið að sýna vald? Koma Merkel var öllu hógværari.“Gylfi Magnússon hagfræðingur sér svo óvæntan flöt á heimsókn Pence: „Aðförin að einkabílnum fær óvæntan stuðning frá ríkisstjórn Bandaríkjanna.“
Ah, the joy of receiving homophobe-in-chief. Welcome to Iceland, Mike Pence! Here is a photo from our wedding in 2014. We got married in a church by a feminist female priest - of course #blessPencepic.twitter.com/ksU9XDCdAnÞannig eru margir sem láta komu Pence fara í sínar fínustu. Boðað hefur verið til sérstakra mótmæla þar sem komu varaforsetans verður mótmælt. Partí gegn Pence. Þetta verður Austurvelli klukkan fimm og þar hafa tekið höndum saman ýmis samtök svo sem Samtök herstöðvarandstæðinga, Trans Íslands, Samtökin ´78 og Kvenréttindafélag Íslands svo fáein séu nefnd. Í fundarboði segir að að stefna hans misbjóði fjölmörgum Íslendingum.
— Þorbjörg Þorvaldsdóttir (@torbjorg) September 3, 2019
Meintum yfirhommahatara heilsað að hætti hússins
Og þeir eru ýmsir sem eru í forsvari fyrir þessi samtök sem hafa minni en engan áhuga á að bjóða Pence velkominn. Á Twitter er Pence úthrópaður og þar tekur formaður Samtakanna ´78, Þorbjörg Þorvaldsdóttir, til máls og hún vill storka varaforsetanum.Þorbjörg ávarpar hann beint og á ensku. Segir háðslega, í lauslegri þýðingu, að: Það sé sannur heiður að fá yfirhommahatarann í heimsókn. Velkominn. Hér er mynd frá brúðkaupi okkar árið 201 en það var femínískur kvenprestur sem gaf okkur saman – að sjálfsögðu.
Fjölmargir gefa merki um að þeim þyki þetta verðug kveðja. Og þannig gengur það fyrir sig á Facebook og Twitter. Þar er fjör og víst að Pence telst seint aufúsugestur á mörgum bæjum á Íslandi.