Konan var dæmd í sextíu daga skilorðsbundið fangelsi auk þess sem hún var dæmd til greiðslu alls sakarkostnaðar sem í heild er 352. 120 krónur.
Tróð sér á milli lögreglumanna í miðri skýrslutöku
Samkvæmt frumskýrslu lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu voru óeinkennisklæddir lögreglumenn við eftirlit á tónlistarhátíðinni Secret Solstice aðfaranótt 24. júní 2018.Með þeim voru tveir sérþjálfaðir lögregluhundar. Fyrir utan aðalinngang að Laugardalshöllinni merkir annar lögregluhundurinn meint fíkniefni á kærasta ákærðu.
Óskuðu lögreglumenn því eftir að fá að ræða við hann. Kærasti konunnar heimilaði leit á sér en ákærða fylgdist grannt með samskiptum lögreglumanna og kærasta síns. Fíkniefni fundust í brjóstvasa hans og var hann því leiddur afsíðis í því skyni að ljúka málinu með vettvangsskýrslu.
Þegar lögregla var í óða önn að taka af honum skýrslu tróð ákærða sér á milli lögreglumannanna. Lögreglumaðurinn ýtti þá í öxl hennar í því skyni að fá hana í burtu. Við það féll ákærða aftur fyrir sig en annar lögreglumaður greip hana. Stuttu síðar hljóp ákærða að lögreglumönnunum og kýldi lögreglumann með krepptum hnefa í gagnaugað. Var ákærða handtekin og færð í fangageymslu.
Sagði að henni hefði ekki mátt vera ljóst að mennirnir væru lögreglumenn
Í skýrslu sem tekin var af ákærðu kvaðst hún kannast við atvikið og tók fram að hún hafi verið búin að drekka aðeins of mikið áfengi. Fyrir dómi sagðist hún aftur á móti ekki hafa vitað að mennirnir væru lögreglumenn, þeir hafi verið óeinkennisglæddir. Hún minntist þess hvorki að þeir hafi sýnt henni lögregluskilríki né sagt henni að að þeir væru í raun lögreglumenn.Ákærða neitaði sök fyrir dómi og krafðist sýknu. Krafan byggðist á því að henni hafi ekki mátt vera ljóst að þeir menn sem höfðu afskipti af kærasta hennar í umrætt sinn hafi verið lögreglumenn. Þá taldi hún ósannað að hún hafi veitt lögreglumanninum hnefahögg.
Dómari í málinu sagði að framburður ákærðu og kærasta hennar um það sem gerðist hefði ekki verið fyllilega samhljóða. Hann hafi verið ótrúverðugur og í „hrópandi ósamræmi“ við framburð allra þeirra lögreglumanna sem gáfu skýrslu fyrir dómi. Trúverðugur framburður þeirra var lagður til grundvallar sem sönnun þess að ákærða hafi í slegið lögreglumanninn með hnefahöggi í andlitið.