Sigríður Halldórsdóttir hefur verið ráðin aðstoðarmaður Guðmundar Inga Guðbrandssonar, umhverfis- og auðlindaráðherra.
Sigríður hefur síðastliðinn áratug starfað hjá RÚV og síðast vann hún við fréttaskýringaþáttinn Kveik. Einnig hefur hún verið umsjónarmaður í Landanum og hún samdi og sá um sjónvarpsþættina Ævi og Rætur.
Sigríður tekur við starfi Sigríðar Víðis Jónsdóttur sem hefur starfað sem aðstoðarmaður umhverfis- og auðlindaráðherra frá því í júní 2018. Sigríður Halldórsdóttir mun taka við störfum 9. desember næstkomandi.
Sigríður er með BA-próf í heimspeki, hagfræði og stjórnmálafræði frá Háskólanum á Bifröst og meistaragráðu í alþjóðasamskiptum frá IBEI, Institut Barcelona d‘Estudis Internationals, í Barcelona á Spáni.
