Viðskipti innlent

400 milljónir eyrna­merktar einka­reknum fjöl­miðlum

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, vill styrkja einkarekna fjölmiðla.
Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, vill styrkja einkarekna fjölmiðla. vísir/vilhelm
Samkvæmt fjárlagafrumvarpi næsta árs sem Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, kynnti í morgun er gert ráð fyrir því að 400 milljónum verði varið í styrki til einkarekinna fjölmiðla.

Þá hækka fjárframlög til RÚV um 190 milljónir króna í samræmi við áætlun um innheimtar tekjur af útvarpsgjaldi.

Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, kynnti frumvarp sitt um stuðning við einkarekna fjölmiðla síðastliðið vor. Frumvarpið var samþykkt í ríkisstjórn en Lilja náði ekki að leggja frumvarpið fyrir þingið.

Eins og Vísir greindi frá í maí síðastliðnum stóð frumvarpið í nokkrum þingmönnum Sjálfstæðisflokksins þar sem þeim þykir það skjóta skökku við að miðlar á markaði njóti ríkisstyrkja.

Þá hermdu jafnframt heimildir Vísis að með frumvarpinu væri ekki tekið með afgerandi hætti á stöðu RÚV á samkeppnismarkaði.

Miðað við fjárlagafrumvarp næsta árs má gera ráð fyrir að frumvarp Lilju um stuðning við einkarekna fjölmiðla komi nú fram að nýju. Samkvæmt frumvarpi fjárlaga er gert ráð fyrir að 50 milljónir af þeim 400 sem miðlarnir eiga að fá renni til textunar og talsetningar.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×