Viðskipti innlent

Bannað að gefa burðarpoka frá og með 1. september

Sylvía Hall skrifar
Bannið nær til allrar afhendingar burðarpoka án endurgjalds.
Bannið nær til allrar afhendingar burðarpoka án endurgjalds. Vísir/Getty
Samtök verslunar og þjónustu minna á að frá og með 1. september er verslunum óheimilt að afhenda viðskiptavinum burðarpoka án endurgjalds. Bannið nær til allrar afhendingar burðarpoka og skiptir ekki máli úr hvaða efni þeir eru.

Í fréttatilkynningu er áréttað að bannið er ekki algjört bann við plastpokum en slíkt bann tekur gildi þann 1. janúar árið 2021. Þá verður bannað að afhenda burðarpoka úr plasti og skiptir engu hvort sé greitt fyrir þá eða ekki. Hins vegar verður heimilt að afhenda burðarpoka úr öðru en plasti eftir að það bann tekur gildi, þó aðeins gegn endurgjaldi.

Bannið nær til allra þeirra burðarpoka sem innihalda eitthvert magn plasts en ekki til pappírspoka eða maíspoka sem eru lífbrjótanlegir. Slíka poka má afhenda gegn endurgjaldi frá og með 1. september og því verður engin breyting þar á.

Skyldan til þess að innheimta endurgjald fyrir burðarpoka nær til þeirra poka sem eru afhentir neytendum á sölustað og skiptir engu hvort pokarnir séu með höldum eða ekki. Eðli málsins samkvæmt hefur bannið ekki áhrif á poka sem eru seldir í sölueiningum í verslunum.

Umhverfis- og auðlindaráðuneytið hefur tekið saman gagnlegar upplýsingar um málið og benda neytendum á að kynna sér þær. Hér má finna upplýsingar ráðuneytisins.

Í upphaflegri fyrirsögn fréttarinnar sagði að bannað væri að gefa plastpoka frá og með 1. september. Hið rétta er að bannað verður að gefa alla burðarpoka frá þeirri dagsetningu.


Tengdar fréttir

Plastpokabann samþykkt á Alþingi

Frá og með 1. janúar 2021 verður alfarið óheimilt fyrir verslanir að afhenda burðarpoka úr plasti. Hvort sem það verði með gjaldi eða ekki.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×