Lítill þrýstingur var á heitavatnskerfi Kórahverfis í gær og í nótt. Íbúar hverfisins ræddu það á Facebook-síðu hverfisins og virðist sem að einhverjir hafi verið alfarið án heits vatns. Ólöf Snæhólm Baldursdóttir, upplýsingafulltrúi veitna segir að þrýstingurinn hafi verið mun betri nú í morgun og allt sé að færast í eðlilegt horf.
Að einhverju leyti má rekja þrýstingsleysið til tveggja nýrra dælustöðva sem teknar voru í notkun fyrir helgi. Einnig hafi notkun heits vatns verið gífurleg síðustu daga. Ólöf segir að nýtt met hafi ekki verið sett en slagað hafi verið upp í það gamla.
Íbúar höfuðborgarsvæðisins hafa verið hvattir til þess að spara notkun heits vatns.
Veitur tóku nýjar dælustöðvar í notkun fyrir helgi á svokallaða suðuræð. Hún fæðir Hafnarfjörð, Garðabæ, Kópavog og eitthvað af efri byggðum. Eitthvað í þeim stöðvum er ekki að virka sem skyldi og vinna starfsmenn Veitna að því að komast til botns í málinu.
Hér má sjá myndband sem Veitur birtu síðasta vetur sem sýnir hollráð um það hvernig fólk getur nýtt varma best.
Þrýstingur heitavatnsins að komast í eðlilegt horf
