Íranskir embættismenn greindu frá því í dag að sautján einstaklingar hafi verið handsamaðir, sakaðir um að hafa stundað njósnir þar í landi fyrir bandarísku leyniþjónustuna CIA.
Íranska leyniþjónustan sagði að hinir meintu njósnarar væru íranskir ríkisborgarar en væru þjálfaðir af bandarísku leyniþjónustunni.
Greint var frá því að sumir þeirra hafi verið dæmdir til dauða, á meðan annarra bíði langir fangelsisdómar. Ekki liggur fyrir hvenær einstaklingarnir voru handteknir.
Íran heldur því fram að fólkið hafi gerst njósnarar eftir að hafa boðist peningar og tækifæri í Bandaríkjunum og að CIA hafi nálgast það þegar einstaklingarnir sóttust eftir bandarískri vegabréfsáritun eða var statt á ráðstefnum erlendis.
Bandarískir ráðamenn hafa ekki brugðist við ásökunum írönsku leyniþjónustunnar. Stjórnvöld í Íran eru sögð hafa greint frá svipuðum ásökunum áður. Enn sem komið er hefur það ekki fengist staðfest af utanaðkomandi aðilum að um lögmætar ásakanir sé að ræða.
