Sem fyrr raða Norðurlöndin sér ofarlega á listann. Danir tróna á toppnum, Finnar og Svíar deila þriðja sætinu með Svisslendingum og Singapúrum. Norðmenn koma þar á eftir í sjöunda sæti. Af þeim tuttugu ríkjum sem fá hæsta einkunn frá Transparancy International eru fjórtán frá Vestur-Evrópu og Evrópusambandinu.
Danir fengu 88 stig af 100 mögulegum á listanum, hin norrænu ríkin fengu öll yfir 84. Ísland er neðst Norðurlandanna með 76 stig. Einkunn Íslands hefur lækkað um þrjú stig frá 2015.
Samtökin segja að sterkar stofnanir, réttarríki og mikil efnahagsleg framþróun skýri stöðu ríkjanna á efri enda listans. Þrátt fyrir séu þau ekki algerlega laus við spillingu. Mat þeirra nái aðeins til opinberrar spillingar, þar á meðal mútugreiðslna, misnotkunar á almannafé og hagsmunaárekstra svo eitthvað sé nefnt.
Vísa þau meðal annars til peningaþvættishneykslisins sem skekið hefur Danske bank í Danmörku undanfarið og svissneskra banka sem séu iðulega viðriðnir stór peningaþvættismál, þar á meðal 1MBD-hneykslisins í Malasíu og Oderbrecht- og Petrobras-spillingarmálanna í Brasilíu.
Fimm neðstu sætin á listanum skipa svo Norður-Kórea, Jemen, Suður-Súdan, Sýrland og Sómalía.
Popúlistar grafa undan lýðræðislegum stofnunum
Þrátt fyrir að Vestur-Evrópa og ESB-ríki standi sig mun betur en aðrir heimshlutar segja samtökin að löndin eigi enn nokkuð í land með að taka almennilega á spillingu. Ástandinu í Búlgaríu, Grikklandi og Ungverjalandi hafi hrakað undanfarin ár.Vara samtökin sérstaklega við því að popúlískir stjórnmálamenn hafi komist til áhrif í nokkrum ríkjum álfunnar undanfarin ár. Þeir ali á ótta gagnvart tilteknum þjóðfélagshópum og nýtt þann ótta til að réttlæta ólýðræðislegar aðgerðir.
Slíkir hópar hafi gjarnan beitt fyrir sig stafrænum miðlum sem séu ógegnsæir og viðkvæmir fyrir afskiptum og misnotkun útsendara erlendra ríkja, geta grafið undan lýðræðislegum kosningum og framkvæmd þeirra.
„Um alla Evrópu hefur traust borgaranna á lýðræðinu beðið hnekki fyrir vikið,“ segir í skýrslu samtakanna.
Sérstaklega nefna Transparancy International Ungverjaland og Pólland í þessu samhengi. Þar hafi ráðamenn notað popúlíska orðræðu til þess að gera lítið úr aðhaldi almennings. Lýðræðislegar stofnanir og gildi séu í hættu í báðum ríkjum sem séu með puttana í fjölmiðlum og dómstólum sem ógni sjálfstæði þeirra.
„Það eru einnig nokkur tilfelli þar sem fjölmiðlum í báðum ríkjum er beitt til að sýna aðgerðasinna og sjálfstæða hugsuði sem óvini þjóðarinnar sem ágerir klofning sem fyrir er á meðal borgaranna og dregur athyglina frá stjórnmálamönnunum,“ segja samtökin.