Boris Johnson var harðlega gagnrýndur fyrir að taka ekki afstöðu með Kim Darroch, fráfarandi sendiherra Bretlands í Bandaríkjunum, í kjölfar minnisblaðaleka sem birtist í breska dagblaðinu Mail on Sunday. Boris svaraði gagnrýninni á stuðningsmannafundi í dag þar sem hann sagðist lofa því að standa með sendiherrum landsins.
Minnisblaðalekinn olli miklum usla í vikunni sem leið en þar voru ummæli sendiherrans um Donald Trump Bandaríkjaforseta og stjórn hans gerð opinber. Sagði hann Trump og stjórn hans vera klunnalega og óstarfhæfa en sendiherrann sagði af sér í gær vegna málsins.
Theresa May kom sendiherranum til varnar og sagði hann njóta fulls stuðnings ríkisstjórnarinnar þrátt fyrir að skoðanir hans endurspegluðu ekki skoðanir þeirra. Í kjölfarið birti Trump færslur á Twitter-síðu sinni þar sem hann fór ófögrum orðum um bæði sendiherrann og May sjálfa.
Sjá einnig: Gagnrýnir May og segir sendiherrann vera heimskan
Í kappræðum Íhaldsflokksins veigraði Johnson sér við það að lýsa yfir stuðningi við sendiherrann og fordæma ummæli Trump. Í kjölfarið var hann harðlega gagnrýndur af samflokksmönnum sínum og sögðu margir hann gera það til þess að styrkja samband sitt við Trump.
„Ég mun standa með okkar frábæru sendiherrum um allan heim,“ sagði Johnson á stuðningsmannafundi sínum en ítrekaði þó að það benti margt til þess að samband Bretlands við Bandaríkin væri það mikilvægasta.
Johnson tók ekki undir þau sjónarmið að hann væri að viðhalda góðu sambandi sínu við Bandaríkjaforseta og sagðist margoft hafa gagnrýnt hann. Til að mynda væri hann og ríkisstjórn Bretlands ósammála stefnu þeirra varðandi loftslagsvandann og hét hann því að vera fastur fyrir í samskiptum sínum við Bandaríkin.
Ætlar að standa með sendiherrum verði hann forsætisráðherra

Tengdar fréttir

Utanríkisráðherrann segir Trump að sýna virðingu
Kastast hefur í kekki á milli bandarískra og breskra stjórnvalda eftir leka á sendiráðsskjölum annars vegar og kjaftbrúk Bandaríkjaforseta hins vegar.

Johnson og Hunt skiptust á skotum í kappræðum
Fyrstu sjónvarpskappræður leiðtogaefna Íhaldsflokksins fóru fram í kvöld. Greindi frambjóðendunum tveimur á um Brexit og samskiptin við Bandaríkin.

Segir af sér sem sendiherra eftir minnisblaðalekann
Darroch segist vilja binda enda á vangaveltur varðandi stöðu sína og sagði það vera ómögulegt fyrir hann að sinna starfi sínu eftir lekann.