Erlent

Af­þakkar boð Ísraels­ríkis vegna hug­sjóna

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Rashida Tlaib afþakkaði boð Ísraelsríkis um að ferðast til Vesturbakkans.
Rashida Tlaib afþakkaði boð Ísraelsríkis um að ferðast til Vesturbakkans. getty/Chip Somodevilla
Bandaríska þingkonan Rashida Tlaib hefur afþakkað boð Ísraelsríkis um að leyfa henni að ferðast til Vesturbakkans, þar sem amma hennar býr. Frá þessu er greint á vef breska ríkisútvarpsins.

Tlaib segir að hún geti ekki hundsað kúgunina sem verið sé að beita í Ísrael.

Henni hafði verið bannað að ferðast til Ísrael í opinberum erindagjörðum en hún hefur opinberlega gagnrýnt stefnu ísraelskra stjórnvalda gagnvart Palestínumönnum. Þá tilkynntu yfirvöld Ísrael í dag að hún fengi að ferðast til landsins í persónulegum tilgangi ef hún samþykkti að hvetja ekki til sniðgöngu á Ísrael á meðan hún væri í landinu.

Rashidu Tlaib (t.v.) og Ilhan Omar (t.h.) hefur verið meinað landvistarleyfi í Ísrael.getty/Mark Wilson
Ástæða þess að yfirvöld í Ísrael veittu Tlaib sérstakt landvistarleyfi er sú að henni og annarri bandarískri þingkonu, Ilhan Omar, hafði verið bannað að koma til landsins á fimmtudag vegna þrýstings frá Donald Trump, Bandaríkjaforseta. Hann hafði hvatt ísraelsk stjórnvöld að refsa þeim en þær eru báðar múslimar og demókratar.

Sjá einnig: Ísraelar snúa við ákvörðun um aðra þingkonuna

Þingkonurnar tvær hugðust heimsækja Vesturbakkann á sunnudag en ísraelsk stjórnvöld tilkynntu í gær að þær fengju ekki að koma og vísuðu til stuðnings þeirra við sniðgöngu á Ísrael vegna hernámsins á landsvæðum Palestínumanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×