Enski boltinn

Pochettino: Ekki hægt að bera saman Liverpool og Tottenham

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Pochettino er ekki í titlasöfnun
Pochettino er ekki í titlasöfnun mynd/tottenham
Liverpool fær Tottenham í heimsókn í stórleik dagsins í enska boltanum en ekki eru margar vikur síðan að þessi lið voru bæði í baráttu um efsta sæti deildarinnar.

Tottenham hefur hins vegar fatast flugið verulega að undanförnu og er baráttan um Englandsmeistaratitilinn nú eingöngu á milli Liverpool og Man City. Raunar segir Mauricio Pochettino, stjóri Tottenham, að liðið eigi ekkert erindi í að berjast á toppnum.

„Þú getur ekki borið okkur saman við Liverpool. Þegar Klopp var ráðinn til Liverpool sneri öll þeirra einbeiting að því að búa til lið sem gæti keppt við bestu liðin um að vinna deildina,“ segir Pochettino og bendir á að það verkefni sem er í gangi hjá Tottenham snúist ekki eingöngu um titlasöfnun.

„Okkar nálgun er allt önnur og við það er ekki hægt að bera þessi tvö verkefni saman. Þeir eru í allt öðrum pakka. Í síðustu tveimur félagaskiptagluggum höfum við ekki verslað einn leikmann. Við erum að einbeita okkur að öðrum hlutum og þess vegna erum við öðruvísi. Við þurfum að notfæra okkur aðrar leiðir en um leið að vera samkeppnishæfir því fótbolti er auðvitað það mikilvægasta í þessu fyrirtæki.“

„Liverpool er með ótrúlegan leikmannahóp og á hverju tímabili bæta þeir við sig meiri gæðum. Það er eðlilegt að Liverpool, Man City, Man Utd og Chelsea séu að að byggja upp lið til að vinna,“ segir Pochettino.

Leikur Liverpool og Tottenham hefst klukkan 15:30 og er sýndur í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×