Innlent

Sam­eigin­legur fundur stjórnar­flokka um þriðja orku­pakkann

Heimir Már Pétursson skrifar
Þingflokkar stjórnarflokkanna komu saman til sameiginlegs fundar í Ráðherrabústaðnum í dag til að ræða innleiðingu þriðja orkupakka Evrópusambandsins. Nokkur andstaða er við innleiðinguna innan Framsóknarflokksins og meðal nokkurra þingmanna Sjálfstæðisflokksins.

Íslendingar hafa innleitt orkupakka I og II frá Evrópusambandinu. En það hefur vafist fyrir stjórnvöldum að leggja fram þingsályktun og frumvarp um innleiðingu þriðja orkupakkans.

Í honum felst meðal annars regluverk sem tæki á raforkusölu frá Íslandi inn á Evrópumarkað í gegnum sæstreng sem gæti mögulega haft áhrif á raforkuverð hér á landi.

Stuðningsmenn málsins segja slíkan streng aldrei verða lagðan án samþykkis Alþingis og þá yrði strengurinn lagður til Bretlands sem væri á leið út úr Evrópusambandinu. Meginmál pakkans sé að hann tryggi eftirlitshlutverk íslenskra stofnana með raforkumálum samkvæmt samevrópskum reglum.

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, sem ekki var á fundinum í dag vegna embættiserinda í útlöndum, hefur sagt að hann vilji leita undanþága frá sambandinu. En samkvæmt heimildum fréttastofu er líklegt að Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra leggi bráðlega fram þingsályktun um málið og fljótlega í framhaldinu muni Þórdís Kolbrún Gylfadóttir iðanaðarráðherra leggja fram frumvarp um innleiðinguna.

Utanríkisráðherra vildi þó ekki staðfesta þetta í dag.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×