Það var mikið fagnað í Selfossstúkunni í Dalnum enda Selfossliðið tvisvar sinnum búið að tapa bikarúrslitaleik á síðustu árum. Allt var þegar þrennt er og það sást langar leiðir að Selfossstelpurnar sættu sig við ekkert annað en gull að þessu sinni.
Myndbandið sem að stelpurnar okkar sáu fyrir leikinn í gær! https://t.co/RKsX97M5f6
— Selfoss Fótbolti (@selfossfotbolti) August 18, 2019
Það er ekki nóg með að Selfossliðið hafi fengið frábæran stuðning í stúkunni þá fengu þær líka að horfa á mjög hvetjandi og skemmtilegt myndband fyrir bikarúrslitaleikinn.
Þar mátti sjá allar helstu íþróttastjörnur Selfoss og Suðurlands senda sínum stelpum baráttukveðjur.
Í myndbandinu mátti sjá landsliðsfólk eins og Dagnýju Brynjarsdóttur, Jón Daða Böðvarsson og Viðar Örn Kjartansson.
Þar voru líka leikmenn úr Íslandsmeistaraliði Selfoss í handboltanum, Íslandsmeistaraþjálfarann Patrek Jóhannesson, leikmenn úr öðrum meistaraflokkum Selfoss og einnig þá leikmenn Selfossliðsins sem eru komnar út í skóla og gátu ekki verið með. Í myndbandinu voru líka nokkrir erlendir leikmenn Selfoss frá síðustu árum.
Það má sjá þetta skemmtilega myndband hér fyrir neðan. Eftir að hafa horft á það þarf kannski ekki að koma mikið á óvart að Selfossstelpurnar hafi náð í langþráð gull.