Sport

Eyðilagði tvo spaða á klósettinu og hrækti svo á dómarann

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Nick Kyrgios.
Nick Kyrgios. Getty/Minas Panagiotakis
Ástralski tenniskappinn Nick Kyrgios er þekktur skaphundur og það þarf því ekkert að koma mikið á óvart að skapið hans sé eitthvað til vandræða. Kyrgios  bauð hins vegar upp á „nýjungar“ í skammarlegri framkomu sinni á Cincinnati Masters mótinu um helgina.

Nick Kyrgios tapaði þar fyrir Karen Khachanov, 6–7, 7–6, 6–2 í annarri umferð. Kyrgios kom til baka og vann fyrsta settið en í öðru settinu fór allt að ganga á afturfótunum hjá honum.

Fergus Murphy, dómari leiksins, aðvaraði Kyrgios fyrir að taka sér of langan tíma í uppgjafir sínar og það var aðeins eins og olía á eldinn.

Andstæðingurinn Karen Khachanov hélt ró sinni allan tímann og marði síðan sigur í öðru settinu.





Nick Kyrgios fékk síðan refsingu í þriðja settinu fyrir að kalla dómarann versta dómarann frá upphafi. Það var samt bara byrjunin enda svo sem ekkert nýtt að sjá tennisspilara öskra ósátta á dómara.

Nick Kyrgios var á þessum tímapunkti augljóslega að brenna yfir af reiði. Hann hafði þó vit á því til að forðast frekari refsingar dómarans og fékk leyfi til þess að fara á klósettið.





Nick Kyrgios greip með sér tvo spaða og handklæði í leiðinni og strunsaði inn á klósett. Fergus Murphy dómari vissi ekki alveg hvernig hann átti að taka þessu því hann sagði síðan í talstöðina sína: „Hann fór á klósettið með tvo spaða og kom til baka með tvo brotna spaða.“

Kyrgios fékk síðan viðvörun fyrir að taka sér of langan tíma til að gera annan óbrotinn spaða klárann. Ástralinn hætti að reyna á sig í lokasettinu og Karen Khachanov vann örugglega.

Kyrgios tók í höndina á Karen Khachanov eftir leikinn, kallaði síðan blótsyrði í átt að dómaranum og virtist síðan hrækja á Fergus Murphy dómara.

Nick Kyrgios hlýtur að fá sekt fyrir þessa skammarlegu framkomu sína og jafnvel bann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×