Innlent

Farþegar sátu fastir um borð í fjóra tíma

Sylvía Hall skrifar
Veðrið setti strik í reikninginn hjá mörgum farþegum sem lentu á Keflavíkurflugvelli í dag. Vegna hvassviðris þurfti að taka landganga úr notkun og sátu margir farþegar fastir um borð í flugvélum sem höfðu lent eftir hádegi í allt að fjóra tíma.

Þröstur Söring, framkvæmdarstjóri rekstrarsviðs Keflavíkurflugvallar, segir daginn hafa verið venjulegan framan af. Um hádegisbil hafi þó tekið að hvessa og fyrsta vél sem varð fyrir áhrifum veðursins var vél Lufthansa frá Frankfurt og skömmu síðar vél Icelandair sem kom frá Dublin.

Fleiri vélar bættust í hóp þeirra og urðu vélarnar alls 21 þar sem farþegar komust ekki frá borði, þar af sautján vélar Icelandair. Þröstur segir óvenjulegt að veður hafi áhrif á flug svo marga daga í röð, sérstaklega á þessum tíma árs, en veðrið setti flugsamgöngur einnig úr skorðum um helgina. Svona dagar sjáist yfirleitt bara yfir hávetur.

„Yfirleitt er þetta bara einn dagur sem er hvellur og svo greiðum við úr því,“ sagði Þröstur um síðustu daga í viðtali við kvöldfréttir Stöðvar 2.

Hann segir viðbragðsáætlun vera virkjaða um leið og ljóst er að flug muni raskast og áhersla sé lögð á að koma upplýsingum til farþega þar sem óvissan sé verst.

Þá spila samfélagsmiðlar stóra rullu í upplýsingagjöfinni og segir Þröstur farþega vera duglega við að leita upplýsinga í gegnum forrit á borð við Messenger og Twitter. Þar sé allt kapp lagt á að svara farþegum og tryggja að þeir séu upplýstir um stöðu mála.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×