Körfubolti

Með pálmann í höndunum í kvöld

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Ísland má tapa með 19 stigum en fer samt áfram. Hörður Axel Vilhjálmsson er fyrirliði íslenska liðsins.
Ísland má tapa með 19 stigum en fer samt áfram. Hörður Axel Vilhjálmsson er fyrirliði íslenska liðsins. Vísir/Bára
Íslenska karlalandsliðið í körfubolta mætir Sviss í lokaleik H-riðils í undankeppni EuroBasket 2021 ytra í dag. Ísland er með örlögin í eigin höndum fyrir lokaleikinn og er staða íslenska liðsins afar vænleg enda má Ísland tapa með nítján stigum í kvöld en fara samt áfram á næsta og síðasta stig undankeppninnar.

Ísland vann fyrri leik liðanna með minnsta mun, 83-82, þar sem Martin Hermannsson tryggði Íslandi sigurinn með körfu á lokasekúndu leiksins.

Íslenska liðinu tókst vel að halda aftur af Clint Capela, stærstu stjörnu svissneska liðsins, og gaf öðrum leikmönnum liðsins færi á að stýra sóknarleiknum sem virtist ætla að verða Íslandi að falli.

Minni spámenn innan svissneska liðsins hittu vel og virtust ætla að skila liðinu yfir línuna þar til Ísland náði að snúa leiknum við með öflugum lokaspretti. Íslenska liðið er að reyna að komast í lokakeppni EuroBasket í þriðja skipti í röð og tryggir sig áfram á næsta stig undankeppninnar með sigri í kvöld eða tapi ef það verður með nítján stigum eða minna.

Í næsta riðli bíða Georgía, Finnland og Serbía. Georgía hefur þegar tryggt sér þátttökurétt á Euro­Basket sem gestgjafi og stæði það því á milli Íslands, Finnlands og Serbíu að berjast um lausu sætin tvö í lokakeppninni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×