Innlent

Fjórtán teknir vegna brota við rjúpnaveiði

Lögreglan á Snæfellsnesi gómaði rjúpnaskyttu sem hafði ekki skotvopnaleyfi
Lögreglan á Snæfellsnesi gómaði rjúpnaskyttu sem hafði ekki skotvopnaleyfi
Lögreglan á Snæfellsnesi lagði hald á skotvopn og skotfæri rjúpnaskyttu við Dagverðará á laugardag þar sem skyttan hafði ekki skotvopnaleyfi. Lögreglan fór þennan daginn í gæsluflug með áhöfn TF-Líf og var ákveðið að sinna rjúpnaveiðieftirliti úr lofti. Lítið var um veiðimenn en afskipti voru höfð af tveimur rjúpnaskyttum, þeim við Dagverðará og annarri skammt ofan við Grundarfjörð.

Lögregla og Landhelgisgæslan hafa stundað virkt eftirlit með rjúpnaveiði á þessu veiðitímabili og hefur lögreglan skráð fjórtán meint lögbrot í tengslum við veiðarnar. Flest þeirra tengjast brotum á lögum um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum en lögregla hefur einnig haft afskipti af veiðimönnum vegna aksturs utan vega og brota á vopnalögum.

Veiðimenn eru hvattir til hófsamra veiða en rjúpnaveiðar eru eingöngu heimilar föstudaga, laugardaga og sunnudaga, til og með 5. desember.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×