Innlent

Margt býr í þokunni

Erla Hlynsdóttir skrifar
Þokan ljáir höfuðborginni dulúðlegt yfirbragð
Þokan ljáir höfuðborginni dulúðlegt yfirbragð Mynd: Pjetur

Sú þoka sem nú liggur yfir höfuðborgarsvæðinu kemur meðal annars til vegna sérstakrar lagskiptingar lofthitans. Í Reykjavík er hitinn við jörðina um frostmark en í nokkurra metra hæð hefur hitinn hins vegar víða náð fjórum gráðum. Vegna þessa pressast kalda loftið niður og þokan myndast úr rakanum.

Árni Sigurðsson, veðurfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, segir úrkomubakka liggja yfir stærstum hluta landsins sem skýri rakt loftið. Lagskipting lofthita og stilla verða síðan til þess að dulúðleg þokan umlykur höfuðborgarbúa. Veðurstofan hefur þó einnig upplýsingar um þoku á Borgarnesi, úti á Snæfellsnesi og í grennd við Keflavík.

Víða jaðrar við að hrímþoka hafi myndast en það gerist þegar hitinn fer undir frostmark.

Að sögn Árna er ómögulegt að segja til um hvenær þokan hverfur en hann býst við að loftið komist á hreyfingu þegar líða fer á kvöldið. Með golunni minnkar þokan eða jafnvel hverfur. Óútreiknanlegt þokuloftið gæti þó vel farið fyrr og halda veðurfræðingar Veðurstofunnar áfram að fylgjast með.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×