Fótbolti

Stuðningsmenn Frakka búnir að fyrirgefa liðinu

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Oliver Giroud verður í aðalhlutverki hjá Frökkum á HM.
Oliver Giroud verður í aðalhlutverki hjá Frökkum á HM. Vísir/getty
Oliver Giroud, framherji Arsenal og franska landsliðsins í fótbolta, segir liðið vera komið yfir vitleysuna sem var í gangi innan hópsins á HM í Suður-Afríku fyrir fjórum árum.

Allt sprakk í loft upp á HM 2014 hjá Frökkum. Liðið neitaði að æfa eftir Nicolas Anelka var rekinn heim fyrir að rífast við þjálfarann RaymondDomenech og kalla hann öllum illum nöfnum.

Liðið komst ekki upp upp úr riðlinum sem leiddi til deilna á milli þess og stuðningsmannanna. En nú er öldin önnur, segir Giroud. Ró er innan hópsins og fólkið stendur með liðinu.

„Ég hlakka mikið til heimsmeistarakeppninnar. Það verður magnað að vera í Brasilíu og er að sama skapi kjörið tækifæri fyrir Frakkland til að koma til baka,“ segir Giroud við heimasíðu Arsenal.

„Vonbrigðin voru mikil síðast en nú er það í fortíðinni. Við erum með mjög gott lið og getum gert eitthvað á þessu móti. Stuðningsmennirnir tala enn um sigurinn 1998. Það verður alltaf góð minning og fólkið býst við miklu af okkur.“

„Við höfum sýnt að við erum betri en fyrir tveimur árum. Við höfum náð sáttum við stuðningsmennina þökk sé góðra úrslita. Minningarnar frá síðasta HM og síðasta EM eru slæmar en það er í fortíðinni núna og við horfum fram á veginn,“ segir Oliver Giroud.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×