Rafael Nadal er kominn í sinn níunda úrslitaleik á Opna franska meistaramótinu á síðustu tíu árum.
Nadal fór heldur létt með Bretann Andy Murray í undanúrslitum í dag, 6-3, 6-2 og 6-1, og mætir Novak Djokovic í úrslitaviðureigninni á sunnudag.
Djokovic hafði fyrr í dag betur gegn Lettanum Ernests Gulbis í sinni undanúrslitaviðureign í fjórum settum.
Murray átti ekki mikinn möguleika gegn Nadal í dag og vann aðeins tíu stig þegar Spánverjinn öflugi átti uppgjöf. Viðureignin stóð yfir í aðeins eina klukkustund og 40 mínútur.
Nadal, sem oft er kallaður konungur leirsins, hefur unnið þrettán stórmót - þar af Opna franska átta sinnum. Enginn hefur unnið neitt stórmótanna svo oft.

