Innlent

Íslenskur karlmaður sagður alvarlega slasaður eftir bílslys á Möltu

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Þrír voru í bílnum þegar slysið varð. Mynd tengist fréttinni ekki beint.
Þrír voru í bílnum þegar slysið varð. Mynd tengist fréttinni ekki beint. Vísir/Getty
Íslenskur karlmaður á fertugsaldri er sagður liggja alvarlega slasaður á sjúkrahúsi eftir bílslys á Möltu, að því er fram kemur í maltverskum fjölmiðlum. Utanríkisráðuneytið hefur sett sig í samband við ræðismann Íslands á Möltu vegna málsins. RÚV greindi frá fyrst íslenskra fjölmiðla.

Lögreglu barst tilkynning um slysið seint á þriðjudagskvöld, sem varð í maltverska bænum Għaxaq. Talið er að ökumaður bifreiðar, kona á þritugsaldri, hafi misst stjórn á bílnum og hann hafnað framan á íbúðarhúsi.

Samkvæmt fréttum maltverska fjölmiðla voru tveir farþegar í bílnum, maltversk kona á þrítugsaldri og íslenskur karlmaður á fertugsaldri, og voru þau flutt alvarlega slösuð á Mater-Dei-sjúkrahúsið í bænum Msida á austurströnd Möltu. Ökumaður bílsins er hins vegar sagður hafa hlotið minniháttar meiðsl.

Sveinn H. Guðmarsson, fjölmiðlafulltrúi utanríkisráðuneytisins, segir í samtali við Vísi að ráðuneytið hafi sett sig í samband við ræðismann Íslands á Möltu, Maurice Mizzi, sem hafi sjálfur sett sig í samband við sjúkrahúsið.

Sveinn segir jafnframt að ekki hafi verið leitað til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins, sem veitir Íslendingum sem staddir eru erlendis aðstoð, vegna málsins. Þá gat hann ekki staðfest að um Íslending væri að ræða.

Fréttin hefur verið uppfærð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×