Innlent

Flugumferðarstjórar eygja ekki lausn

Óli Kristján Ármannsson og Þórdís Valsdóttir skrifar
Engin niðurstaða er í augsýn í kjaradeilu flugumferðarstjóra.
Engin niðurstaða er í augsýn í kjaradeilu flugumferðarstjóra. Vísir/Ernir
Samningafundi flug­umferðarstjóra í launadeilu þeirra við Isavia og Samtök atvinnulífsins lauk án árangurs eftir að hafa staðið í allan gærdag. Ekki var boðað til nýs fundar.

„Það ber enn mikið í milli hvað varðar launaliði,“ segir Guðni Sigurðsson, upplýsingafulltrúi Isavia. „Það virðist vera langt í land.“

Búist er við að ríkissáttasemjari boði til næsta fundar í deilunni, en það verður að gera innan hálfs mánaðar.

Sigurjón Jónasson, formaður Félags íslenskra flugumferðarstjóra, segir niðurstöðu í deilunni ekki í augsýn eins og staðan er núna.

„Flugumferðarstjórar hafa dregist aftur úr í launaþróun. Okkar krafa var, og er enn, að nýr kjarasamningur taki tillit til þess,“ segir Sigurjón.

Yfirvinnubann flugumferðarstjóra hefur verið í gildi frá 6. apríl. Það hefur haft í för með sér tafir á Keflavíkurflugvelli þar sem ekki má kalla út starfsmenn vegna til dæmis veikinda.

„Yfirvinnubannið hefur haft töluverð áhrif og í raun meiri en við bjuggumst við fyrirfram svo við sjáum ekki ástæðu til þess á þessu stigi að fara í harðari aðgerðir,“ segir Sigurjón Jónasson.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu 4. júní.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×