Innlent

Hæstiréttur þyngir dóma í BMW-smyglmáli

MYNDHörður

Hæstiréttur þyngdi í dag dóm héraðsdóms yfir þremur mönnum sem dæmdir voru fyrir að smygla um 15 kílóum af amfetamíni og tíu kílóum af hassi í BMW-bifreið inn til landsins. Dómarnir voru allir þyngdir um eitt ár.

Þyngstan dóm hlaut Ólafur Ágúst Hraundal eða níu og hálfs árs fangelsi, en fjögur og hálft ár af því eru eftirstöðvar níu ára dóms sem Ólafur hlaut fyrir aðild sína að stóra fíkniefnamálinu árið 2000. Hann var dæmdur fyrir að taka á móti fíkninefnunum í þessu máli en ekki fyrir að skipuleggja smyglið.

Þá hlaut Hörður Eyjólfur Hilmarsson sjö ára dóm í Hæstarétti en hann fékk sex ára dóm í héraðsdómi fyrir að skipuleggja smyglið og taka á móti fíkniefnunum. Enn fremur var Ársæll Snorrason dæmdur í fimm ára fangelsi fyrir aðild sína að málinu en hann var dæmdur í fjögurra ára fangelsi í héraðsdómi. Fjórði maðurinn, Hollendingurinn Johan Hendrik, var dæmdur í sex ára fangelsi í héraðsdómi en hann áfrýjaði ekki dómi sínum

Málið kom upp um páskana í fyrra en þrír mannanna voru handteknir að kvöldi skírdags þar sem þeir voru að losa efnin úr bensíntanki BMW-bílsins í iðnaðarhúsi í Reykjavík en aðrir voru handteknir síðar.

Í niðurstöðu Hæstaréttar segir að brotin, sem allir ákærðu áttu hlut að, ættu sér fáar hliðstæður í dómaframkvæmd að því er varðar magn fíkniefna. Ættu ákærðu sér engar málsbætur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×