Framherjarnir Roque Santa Cruz og Roy Makaay gætu báðir verið á förum frá Bayern Munchen í Þýskalandi í sumar ef félagið nær að festa kaup á framherjanum Miroslav Klose frá Werder Bremen. Bayern á ekki sæti í Meistaradeildinni á næstu leiktíð en forráðamenn félagsins láta það ekki stöðva sig í að kaupa leikmenn.
Verði af kaupum Bayern á landsliðsmanninum Klose, yrði hann þriðji framherjinn til að ganga í raðir félagsins á stuttum tíma til viðbótar við þá Luca Toni og Jan Schlaudraff. Þetta myndi væntanlega þýða að þeir Makaay og Santa Cruz féllu úr náðinni.
"Roy Makaay hefur þegar farið fram á að verða settur á sölulista ef Klose kemur og við höfum orðið við þeirri ósk hans. Santa Cruz hefur á sama hátt beðið um að fá að fara og við verðum við þeirri ósk hans ef einhver er tilbúinn að greiða fyrir hann uppsett verð," sagði Karl-Heinz Rummenigge stjórnarformaður Bayern.