Saksóknarinn í Los Angeles hefur ákært Harvey Weinstein fyrir kynferðisbrot gegn tveimur konum.
Weinstein, sem var kvikmyndaframleiðandi og lengi vel einn valdamesti maður í Hollywood, er ákærður fyrir nauðgun gagnvart einni konu og kynferðisbrot gagnvart annarri. Brotin eiga að hafa verið framin á tveimur dögum árið 2013.
Fyrra brotið á að hafa verið framið þann 18. febrúar 2013. Þá nauðgaði Weinstein konu eftir að hafa ýtt henni inn á hótelherbergi, að sögn saksóknara. Kvöldið eftir er talið að hann hafi brotið kynferðislega gegn annarri konu á hótelsvítu í Beverly Hills.
Bæði Weinstein og lögmenn hans hafa ítrekað neitað öllum ásökunum um saknæmt athæfi en afstaða hans til ákæranna í Los Angeles liggur ekki fyrir.
Verði Weinstein fundinn sekur gæti hann átt allt að 28 ára fangelsisdóm yfir höfði sér. Hann mun koma síðar fyrir dóm í Los Angeles og svara til saka. Ákæruvaldið mælist til þess að trygging hans fyrir því að geta gengið laus á meðan málið er til meðferðar verði fimm milljónir Bandaríkjadala.
Saksóknarinn í Los Angeles greindi frá ákærunni í dag, sama dag og réttarhöldin í máli New York-ríkis gegn Weinstein hófust fyrir ríkisdómstól á Manhattan.
Þar er Weinstein ákærður fyrir að hafa nauðgað tveimur konum en fleiri tugir kvenna hafa undanfarin tvö ár sakað Weinstein um kynferðisofbeldi.
Weinstein ákærður fyrir nauðgun og önnur kynferðisbrot í Los Angeles
Tengdar fréttir
Réttarhöld yfir Harvey Weinstein hefjast í New York
Kvikmyndaframleiðandinn valdamikli er ákærður fyrir að hafa beitt tvær konur kynferðislegu ofbeldi. Hann gæti átt yfir höfði sér lífstíðardóm.
Weinstein telur sig geta átt afturkvæmt í kvikmyndabransann
Kvikmyndaframleiðandinn Harvey Weinstein telur sig geta endurreist feril sinn að réttarhöldunum yfir honum loknum muni kviðdómur komast að þeirri niðurstöðu að hann sé saklaus.