Erlent

Hættan á kjarnorkusprengingu ekki meiri síðan í Kalda stríðinu

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Frá kjarnorkutilraunum Bandaríkjamanna í Kyrrahafi árið 1958.
Frá kjarnorkutilraunum Bandaríkjamanna í Kyrrahafi árið 1958. Vísir/Getty
Hættan á kjarnorkusprengingu, hvort sem það er af ásettu ráði eða fyrir mistök, hefur ekki verið meiri síðan í Kalda stríðinu, sem lauk fyrir um 26 árum, og er það ekki síst vegna þessa að fjarað hefur undan sambandi ríkja sem búa yfir kjarnavopnum.

Þetta eru niðurstöður skýrslu sem Afvopnunarstofnun Sameinuðu þjóðanna (UN Institute for Disarmament Research eða UNIDIR) birti á dögunum.

Það er mat stofnunarinnar að heimsbyggðin hafi „alla burði til hamfara“ eins og það er orðað í skýrslunni. „Hættan á að kjarnavopna springi árið 2017 hefur ekki verið meiri í 26 ár eða allt frá falli Sovétríkjanna,“ segja rannsakendahópurinn sem samanstendur af virtum fræðimönnum og sérfræðingum á sviði afvopnunar.

Ógnarjafnvægið hefur verið, og er í raun enn, eitt af hryggjastykkjunum í varnarmálaáætlunum margra stærstu herríkja heims. Níu ríki; Kína, Bretland, Bandaríkin, Indland, Pakistan, Frakkland, Norður-Kórea, Ísrael og Rússland búa yfir alls 15 þúsund kjarnavopnum og ekkert lát virðist á fjárútlátum til áframhaldandi þróunar vopnanna.

Stirt samband Bandaríkjanna og Rússlands er ein helsta ástæðan fyrir niðurstöðum skýrslunnar að sögn rannsakendanna. „Endurkoma Kalda stríðslegs viðhorfs ríkjanna hefur grafið undan alþjóðasamstarfi og trausti alþjóðasamfélagsins,“ segja rannsakendurnar sem telja lausnina þó ekki felast í því að Bandaríkin minnki kjarnorkuvopnabúr sitt.

„Ef Bandaríkin veikja stöðu sína gæti það orðið til þess að ýta undir framsækni annarra ríkja í þróun kjarnavopna. Ógnarjafnvægið virkar - allt þangað til að það hættir að virka, sú hætta er alltaf til staðar og þegar heppnin er úti verða afleiðingarnar hörmulegar,“ segir í skýrslunni sem nálgast má hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×