Bandaríkjaforseti, Donald Trump, sagði á blaðamannafundi í Hvíta húsinu í dag að hann hafi undanfarna eina og hálfa viku tekið inn malaríulyfið Hydroxychloroquine til varnar gegn faraldri kórónuveirunnar. BBC greinir frá.
„Ég hef tekið lyfið í eina og hálfa viku, ég er enn hér,“ sagði forsetinn en honum og samstarfsmönnum hans hefur verið tíðrætt um notagildi lyfsins í baráttunni gegn kórónuveirunni. Þó hafa engar sönnur verið færðar á virkni lyfsins en rannsóknir eru þó hafnar.
Forsetinn sagðist hafa fengið fjölda símtala þar sem fólk lýsti ánægju sinni með virkni lyfsins og sagði fjölda heilbrigðisstarfsmanna taka lyfin að staðaldri. „Það myndi koma þér á óvart hve margir taka lyfið, sérstaklega fólk í framlínunni,“ sagði Trump við blaðamenn á fundinum.
Hvorki lyfjaeftirlit né sóttvarnamiðstöð Bandaríkjanna hafa gefið út að lyfið hafi nokkurt notagildi gegn veirunni en enginn lyf eru skráð sem hafa virkni gegn veirunni. Þá hefur verið tekið eftir mögulegri aukaverkun af notkun Hydroxychloroquine og er talið að lyfið geti valdið hjartsláttartruflunum.
Trump var spurður hvort hann hafi ráðfært sig við lækni áður en hann hóf inntöku lyfsins og jánkaði hann því. „Ég spurði hann hvað honum fyndist. Hann sagði að það væri undir mér komið hvort ég tæki lyfið,“ sagði Trump.