Fótbolti

Mannleg mistök sem við tökum hæfilega létt - „Puma sótti það fast að semja við okkur“

Sindri Sverrisson skrifar
Þessi mynd lak á netið og virðist sýna nýja landsliðstreyju og merki íslensku fótboltalandsliðanna.
Þessi mynd lak á netið og virðist sýna nýja landsliðstreyju og merki íslensku fótboltalandsliðanna.

„Þetta kom okkur á óvart en þetta var fínasta mynd,“ sagði Guðni Bergsson, formaður KSÍ, um það þegar nýr samstarfsaðili KSÍ, Puma, birti óvart mynd sem virtist sýna nýja treyju og merki íslensku fótboltalandsliðanna.

Guðni sagði í samtali við Svövu Kristínu Gretarsdóttur í Sportpakkanum að ekki væri endilega víst að treyjan sem hann sást halda á á myndinni yrði næsta aðaltreyja Íslands.

„Það á eftir að koma í ljós. Þetta var ein af þessum prufutreyjum sem við vorum að vinna með. Þetta kemur auðvitað allt í ljós þegar að við kynnum treyjuna formlega um mánaðamótin júní/júlí,“ sagði Guðni. Merkið sem sást á treyjunni er þó væntanlega nýja merkið sem verður á landsliðstreyjum Íslands, eða hvað?

„Það má alveg búast við því. Ég held að það sé alveg ágætlega ályktað að svo gæti verið. Við höfum auðvitað líka verið í hönnunarvinnu með merkið, með Brandenburg, og unnið með Puma og hönnuðum að því að bæði hanna treyju og merki, og þetta var svona einn afraksturinn af því. Við erum með nokkrar treyjur í gangi og það verður spennandi að sjá endanlegu útgáfuna,“ sagði Guðni, sem vildi ekki gera mikið úr þeim mistökum Puma að sýna treyjuna og merkið, sem ætlun KSÍ var og er enn að kynna í næsta mánuði:

„Ég held að þetta séu bara mannleg mistök. Þetta birtist og við höfum farið yfir málið með Puma, og við tökum þessu hæfilega létt. Við erum að eiga við ýmislegt í samfélaginu, bæði hér og úti um allan heim. Auðvitað var þetta ekki eins og til var ætlast en svona fór þetta og við verðum bara að vinna úr þeirri stöðu. Það stóð alltaf til að kynna þetta þegar að okkar samningi við Errea lyki í lok júní, svo það er ekki mikið breytt. Kannski er dulúðin aðeins farin eða þá að þetta skapar vangaveltur og enn meiri spennu,“ sagði Guðni. KSÍ hefur notað treyjur frá Errea síðustu átján ár en nú lýkur því samstarfi.

„Við erum mjög ánægð með þennan samning. Puma sótti það fast að semja við okkur og þetta er eitt af stærstu íþróttavörumerkjum í heimi,“ sagði Guðni.

Klippa: Sportpakkinn - Guðni Bergs

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×