Erlent

„Takið hnén á ykkur af hálsunum á okkur“

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Al Sharpton var einn af þeim sem minntust George Floyd.
Al Sharpton var einn af þeim sem minntust George Floyd. AP/Bebeto Matthews)

Hné lögreglumannsins á hálsi George Floyd er myndlíking fyrir þann raunveruleika sem þeldökkir Bandaríkjamenn glíma við á hverjum degi að mati séra Al Sharpton. Hann hélt tilfinningaþrungið erindi á minningarathöfn um Floyd í Minneapolis í kvöld.

„Ástæðan fyrir því að við getum aldrei orðið það sem við viljum vera eða dreymum um að vera er vegna þess að þið hafi verið með hnén á hálsi okkar,“ sagði Sharpton við viðstadda. Viðstaddir voru ættingjar og vinir Floyd, ásamt stjórnmálamönnum og trúarlegum leiðtogum.

„Það er kominn tími til þess að við stöndum upp í nafni Floyd og segjum: Takið hnén á ykkur af hálsunum á okkur,“ sagði Sharpton.

Morðið á Floyd hefur orðið til þess að kynþáttafordómum og lögregluofbeldi hefur verið mótmælt af krafti víða um Bandaríkin.

Þannig hefur nafn Floyd orðið af baráttukalli víða um heim. Fjölskyldumeðlimir hans þekktu hann þó sem Perry og nágrannar hans kölluðu hann Stóra Floyd. Minntust þeir hversu auðvelt það reyndist honum að að eignast vini og láta aðra finnast þeir vera velkomnir.

„Það sem ég sakna mest eru faðmlögin hans,“ sagði Shareeduh Tate, frænka Floyd. „Hann var bara algjör risi.“

Sharpton hét því að nafn Floyd myndi ekki gleymast.

„Við höldum vegferðinni áfram, George,“ sagði Sharpton. „Við munum halda áfram að berjast, George.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×