Staðfest smit kórónuveirunnar sem veldur Covid-19-sjúkdómnum eru nú alls 1.819 hér á landi. Staðfestum smitum fjölgaði því um þrjú frá því síðustu tölur voru birtar á covid.is klukkan 13 í gær.
Tvö smitanna greindust á veirufræðideild Landspítalans, og eitt á Keflavíkurflugvelli. Ætla má að tvö smitanna hafi greinst hjá lögreglumönnum sem greindust með veiruna, til viðbótar við þann sem greinst hafði áður eftir aðgerðir vegna rúmenskra manna sem komu til lands í síðustu viku og reyndust smitaðir.
Virk smit hér á landi eru því átta. Í sóttkví eru 501. Á landamærum Íslands voru tekin 702 sýni, en 36 hjá veirufræðideildinni og gerir það því alls 738 sýni síðasta sólarhringinn.
Enginn liggur á sjúkrahúsi með Covid-19. Alls hafa 1.801 náð bata og 22.069 lokið sóttkví. Sýni sem tekin hafa verið hér á landi eru nú 66.542 talsins.
Tíu hafa látist af völdum Covid-19 hér á landi.