Innlent

4,2 milljóna sekt fyrir í­trekuð um­ferðar- og fíkni­efna­laga­brot

Atli Ísleifsson skrifar
Ákæran var í þrettán liðum.
Ákæran var í þrettán liðum. Vísir/Vilhelm

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmt konu til greiðslu 4,2 milljóna króna sektar til ríkissjóðs vegna ítrekaðra umferðar- og fíkniefnalagabrota, sem og brot gegn vopnalögum.

Í dómsorðum segir að verði sektin ekki greidd innan fjögurra vikna skuli konunni gert að sæti fangelsi í 90 daga. Konan er sömuleiðis svipt ökurétti í fimm ár, auk þess að gert er upptækt nokkurt magn fíkniefna. Þá er konan dæmd til greiðslu málsvarnarþóknunar til skipaðs verjenda og greiðslu tæpra 2,2 milljóna króna í annan sakarkostnað.

Brotin, sem tíunduð eru þrettán ákæruliðum, voru framin á tímabilinu febrúar 2018 til september 2019. 

Í fyrsta ákærulið segir frá því að konan hafi ekið bíl undir áhrifum slævandi lyfja og lögregla stöðvað aksturinn við verslun við Suðurhóla í Reykjavík. Þar hafi hún haft í vörslum sínum 4,32 grömm af amfetamíni, hnúajárn og rafstuðbyssu sem lögregla fann við leit.

Í hinum ákæruliðunum segir frá öðrum tilfellum þar sem hún hafi ekið bíl undir áhrifum fíkniefna.

Konan játaði skýlaust brot sín. Samkvæmt sakavottorði þá gekkst ákærða undir greiðslu sektar með lögreglustjórasátt 1. ágúst 2017, fyrir að aka undir áhrifum ávana- og fíkniefna. Þá var ákærða dæmd til greiðslu sektar með dómi í maí 2018, meðal annars fyrir akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna. Var þá um að ræða hegningarauka við sáttina frá 1. ágúst 2017.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×