Konan sem björgunarsveitir leituðu að á Norðurlandi í nótt er fundin. Þetta staðfestir Hermann Karlsson, aðalvarðstjóri hjá lögreglunni á Akureyri, í samtali við fréttastofu nú rétt fyrir hádegi. Hann segir jafnframt að konan hafi verið við góða heilsu þegar hún gaf sig sjálf fram.
Viðamikil leit var gerð að henni í nótt og fram undir morgun. Konan er búsett á Akureyri en leitarsvæðið var stækkað eftir að lögregla fékk upplýsingar sem bentu til þess að hún gæti hafa farið austur á Húsavík.