Fótbolti

Spartak Trnava staðfestir komu Birkis

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Birkir Valur í treyju Spartak Trnava.
Birkir Valur í treyju Spartak Trnava. Vísir/Spartak Trnava

Slóvakíska knattspyrnufélagið Spartak Trnava staðfesti í gær félagaskipti hægri bakvarðarins Birkis Vals Jónssonar. Hann gengur til liðs við Spartak frá uppeldisfélagi sínu HK þar sem hann hefur leikið alls 104 deild- og bikarleiki.

Spartak og HK sömdu um sex mánaða lánsamning en slóvakíska félagið hefur síðan forkaupsrétt á hægri bakverðinum sem hefur til þessa leikið allar mínútur HK í Pepsi Max deildinni í sumar.

„Ég æfði handbolta og fótbolta í 14-15 ár en valdi svo fótboltann,“ sagði Birkir Valur í viðtali eftir að skiptin voru staðfest.

„Ég vissi ekkert um slóvakíska boltann en aðstæður hér hafa komið mér verulega á óvart. Trnava er flott borg og hér er allt til alls. Ég er mjög ánægður með að vera kominn hingað.“ sagði Birkir einnig.

Birkir hefur alls leikið 27 leiki fyrir yngri landslið Íslands og sagðist stefna á að verða byrjunarliðsmaður innan tíðar í liði Spartak.

Deildin í Slóvakíu fer af stað þann 8. ágúst og gæti farið svo að Birkir leiki sinn fyrsta leik er Spartak heimsækir Zemplín Michalovce.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×