Alls hafa þrír Íslendingar verið í eldlínunni með fótboltaliðum sínum í dag. Eru liðin staðsett í Katar, Skotlandi og Noregi.
Landsliðsfyrirliðinn Aron Einar Gunnarsson var á sínum stað er lærisveinar Heimis Hallgrímssonar í Al-Arabi spiluðu sinn annan leik eftir hina svokölluðu Covid-pásu. Gerði liðið markalaust jafntefli við Al Rayyan í efstu deild í Katar. Raunar hefðu Al-Arabi átt að hirða þrjú stig en vítaspyrna Hamdi Harbaoui í fyrri hálfleik geigaði.
Lokatölur því 0-0 og Al-Arabi er í 5. sæti með 25 stig þegar 19 umferðum er lokið. Al Rayyan er sem stendur í öðru sæti deildarinnar.
Ísak Snær Þorvaldsson kom inn af varamannabekk St. Mirren er liðið vann 1-0 sigur á Livingston í fyrstu umferð skosku úrvalsdeildarinnar. Ísak Snær er á láni hjá St. Mirren frá Norwich.
Ingibjörg Sigurðardóttir var á sínum stað í hjarta varnar Vålerenga er liðið vann þægilegan 3-0 útisigur á Arna-Bjørnar í norsku úrvalsdeildinni. Vålerenga var 1-0 yfir í hálfleik en Njoya Ajara Nchout kom liðinu yfir á 11. mínútu. Hún var svo aftur á ferðinni á þeirri 74. áður en Rikke Marie Madsen gerði endanlega út um leikinn þegar fjórar mínútur voru til leiksloka.
Vålerenga er í 2. sæti deildarinnar sem stendur með 12 stig eftir fimm leiki. Rosenborg getur farið upp í annað sætið vinni það Klepp á morgun.