Tveir lögreglumenn eru nú í sóttkví eftir að hafa verið í nærri smituðum einstaklingi á meðan þeir voru við hálendiseftirlit.
Lögreglumennirnir tilheyra embætti lögreglunnar á Norðurlandi eystra en þeir voru við hálendiseftirlit norðan Vatnajökuls. Þar hittu þeir á manneskju sem síðar meir reyndist vera smituð. Hafa lögreglumennirnir verið í sóttkví síðustu daga en ekki greinst með veiruna.
Sóttvarnalæknir hefur sent heilbrigðisráðherra tillögur um breytt fyrirkomulag varðandi skimun á landamærunum en mikið álag hefur verið á sýkla- og veirufræðideild Landspítalans vegna sýnatöku undanfarna daga. Sóttvarnalæknir sagði á fundi almannavarna í gær að breytt fyrirkomulag væri til skoðunar en vildi ekki upplýsa hvert nýja fyrirkomulagið yrði.
Þá hefur lögreglan á höfuðborgarsvæðinu heimsótt veitingahús og matsölustaði undanfarna daga til að tryggja að farið sé eftir auglýsingu heilbrigðisráðherra þar sem kveðið er á um tveggja metra reglu.