Viðskipti innlent

Volvo innkallaður vegna brunahættu

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Volvo af gerðinni S80.
Volvo af gerðinni S80. Creative Commons/m93

Bílaumboðið Brimborg hefur innkallað á sjötta tug Volvo-bifreiða vegna bilunar í kælikerfinu, sem í alvarlegustu tilfellunum getur orsakað brunahættu.

Neytendastofa útlistar þá bíla sem um er að ræða. Þeir eru 56 talsins og af gerðunum Volvo S80, S60, V70, XC70, S60CC, V60, XC60, V60CC, V40 og V40CC.

Ástæða innköllunarinnar er sögð vera sú að áfylling á kælivökva á vél geti haft í för með sér að lofttappi myndist í kælikerfinu. Það geti svo leitt til ófullnægjandi kælingar á íhlutum vélarinnar. Fyrir vikið sé hætta á að íhlutir skemmist „og í versta falli valdið staðbundnum eldi í vélarrými,“ eins og segir á vef Neytendastofu.

Þar er jafnframt tekið fram að viðkomandi bifreiðareigendum verði tilkynnt um innköllunina bréfleiðis og bætt við:

„Neytendastofa hvetur bifreiðaeigendur til að fylgjast vel með hvort að verið sé að innkalla þeirra bifreiðar og hafa samband við umboðið ef þeir eru í vafa.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×