Innlent

Þyrlan enn á ný send á Vestfirði vegna snjóflóðanna

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Á Reykjavíkurflugvelli á þriðja tímanum þegar áhöfnin á TF-GRO undirbjó sig fyrir útkallið vestur. Þyrla gæslunnar var aftur send á Vestfirði nú um klukkan tíu.
Á Reykjavíkurflugvelli á þriðja tímanum þegar áhöfnin á TF-GRO undirbjó sig fyrir útkallið vestur. Þyrla gæslunnar var aftur send á Vestfirði nú um klukkan tíu. landhelgisgæslan

Þyrla Landhelgisgæslunnar lagði af stað frá Reykjavík til Vestfjarða um tíuleytið í kvöld með óþreytt björgunarsveitarfólk, sem aðstoða á björgunarsveitir fyrir vestan vegna snjóflóðanna sem féllu á Flateyri og Suðureyri í gær.

Rögnvaldur Ólafsson aðgerðastjóri Almannavarna var staddur í samhæfingarmiðstöð Almannavarna í Skógarhlíð í Reykjavík þegar Vísir náði tali af honum nú á tólfta tímanum. Hann sagði þyrluna fara að lenda hvað úr hverju á Flateyri, ef hún væri ekki nú þegar lent.

Í þyrlunni er bæði björgunarsveitarfólk og sjálfboðaliðar frá Rauða krossinum. Fólkið mun fara til aðstoðar í fjöldahjálparstöðvunum á svæðinu, sem og létta undir björgunarfólki á Vestfjörðum. „Það eru ýmis handtök sem eru framundan til að koma öllu í samt lag. Svo vildum við hafa fólk á „stand by“ sem er óþreytt,“ segir Rögnvaldur.

Þá hafa vaktir verið skipulagðar í samhæfingarstöðinni sólarhring fram í tímann og starfinu þar því hvergi nærri lokið.

Hættustigi vegna snjóflóða sem lýst var yfir í fyrradag á norðanverðum Vestfjörðum var aflýst í kvöld. Þá var rýmingum á svæðinu einnig aflétt og allir sem þurftu að yfirgefa hús sín mega því snúa heim til sín.


Tengdar fréttir

„Fólk er eðlilega í sjokki“

Fjöldahjálparstöð var opnuð í grunnskólanum á Flateyri um hádegisbil og hafa um fjörutíu íbúar leitað þangað eftir snjóflóðin sem féllu í bænum undir miðnætti í gærkvöldi.

„Einu húsi of mikið að snjóflóðið náði þangað inn“

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, dómsmálaráðherra, segir að það sé einu húsi of mikið að snjóflóð sem féll úr Innra-Bæjargili á Flateyri á tólfta tímanum í gærkvöldi hafi lent á íbúðarhúsinu við Ólafstún 14.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×