Fótbolti

Ís­lenskur knatt­spyrnu­maður sagður skulda skattinum í Sví­þjóð fimm milljónir

Anton Ingi Leifsson skrifar
Elías Már í leik með Excelsior.
Elías Már í leik með Excelsior. vísir/getty

Skattamál íslenska knattspyrnumannsins Elías Más Ómarssonar er til umfjöllunnar í sænskum fjölmiðlum í dag en hann spilar ekki lengur í Svíþjóð.

Sænska dagblaðið Göteborgs-Tidningen greinir frá því að íslenski knattspyrnumaðurinn Elías Már skuldi um fimm milljónir íslenskra króna í skatt í Svíþjóð.

Elías Már lék með Gautaborg á árunum 2016 til 2018 áður en hann færði sig yfir til Excelsior þar sem hann leikur nú í hollensku B-deildinni.

Íslendingavaktin greindi fyrst frá málinu. Innheimtustofnun sænska ríkisins tók málið hans fyrir og komst að því skattaskuldir Elísar séu fjölmargar eða alls fjórtán talsins. Átta þeirra tengjast launagreiðslum Elíasar frá Gautaborg en hinar sex skuldirnar tengjast innheimtu vegatolla.







„Ég hef enga hugmynd hvað þetta gæti hugsanlega verið. Ég veit ekkert um þetta. Ég mun auðvitað laga þetta ef þetta eru einhver mistök. Veist þú hvernig ég get haft samband?“ sagði Elías í samtali við blaðamann Göteborgs-Tidningen.

Skuldin er talin hljóða upp á 357 þúsund sænskrar krónur sem er um fimm milljónir íslenskra króna.

Umboðsmaður hans, Ólafur Garðarsson, hefur svo haft samband við skattayfirvöld í Svíþjóð og reynir að finna lausn á vandamálinu en hann segir þetta skrýtið þar sem hann hafi ekki selt neitt né hagnast í Svíþjóð á einhvern hátt.

Elías Már Ómarsson skoraði 14 mörk í 50 deildarleikjum með IFK Göteborg á árunum 2016 til 2018.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×