Erlent

Þyrlan mátti ekki fara á loft í þoku

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Kobe og Gianna Bryant á leik með Lakers á síðasta ári.
Kobe og Gianna Bryant á leik með Lakers á síðasta ári. Vísir/Getty

Fyrirtækið sem á þyrluna sem hrapaði með körfuboltagoðsögnina Kobe Bryant, Giönnu dóttur hans  og sjö önnur innanborðs, með þeim afleiðingum að öll létust, hafði ekki leyfi til að fljúga í jafn lélegu skyggni og var þegar þyrlan fór niður.

Fyrirtækið, Island Express Helicopters, hafði einungis leyfi til að fljúga þyrlum sínum ef flugmaður gæti séð umhverfi sitt skýrt.

Flugmaðurinn hafði opinberlega leyfi til þyrluflugs en þurfti, vegna lélegs skyggnis, að reiða sig á leiðbeiningar í stjórnklefa þyrlunnar. Hann er ekki talinn hafa haft mikla reynslu af slíku flugi, sökum þess að fyrirtækið mátti aðeins fljúga í góðu skyggni.

Tildrög slyssins eru nú til rannsóknar. Bryant var á leið á körfuboltaleik með dóttur sinni. Í þyrlunni voru einnig liðsfélagar hennar og foreldrar þeirra, auk flugmannsins.

Í gær spilaði lið Los Angeles Lakers, liðið sem Bryant lék með í NBA-deildinni í 20 ár, sinn fyrsta leik eftir andlát hans. Leikurinn var gegn Portland Trail Blazers sem að endingu sigruðu 127-119.

Fyrir leik létu leikmenn Lakers virðingu sína í ljós með því að hita upp í treyjum númer 24 eða 8. Það eru númer sem Bryant bar á bakinu á ferli sínum með Lakers.

Þá flutti LeBron James, leikmaður Lakers og vinur Bryant, ræðu þar sem hann sagðist vilja halda arfleið vinar síns lifandi eins lengi og hann mögulega gæti.

„Það er það sem Kobe Bryant myndi vilja.“


Tengdar fréttir

Íslendingar minnast Kobe

Andlát Kobe Bryant hefur snert við mörgum Íslendingum og ljóst er að þessi magnaði íþróttamaður hefur haft mikil áhrif á íþróttalíf, þá sérstaklega körfubolta, hér á landi undanfarin ár.

Ferill Kobe Bryant í máli og myndum

Kobe Bryant, einn magnaðasti íþróttamaður og karakter íþróttasögunnar, er látinn. Í greininni verður reynt að gera ótrúlegum íþróttaferli Kobe mannsæmandi skil.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×