Rúmlega þrjátíu starfsmenn Hins hússins eru í sóttkví eftir að starfsmaður greindist með kórónuveiruna á fimmtudaginn síðastliðinn. Hinu húsinu var lokað þegar í stað en ungmennin sem hljóta þjónustu Hins hússins voru ekki á staðnum þar sem starfsdagar starfsmanna voru í síðustu viku samkvæmt fréttaflutningi RÚV um málið.
Hitt húsið færði sig um set á Rafstöðvarveg en það var áður við Pósthússtræti í miðborginni. Forstöðumaður Hins hússins segir að erfitt sé að hefja starfsemi á þennan hátt þegar starfsemin er á nýjum stað og verið er að byggja hana upp.

Þá sé þetta erfitt fyrir ungmennin sem njóta þjónustu hins hússins, en það eru fötluð ungmenni í framhaldsskóla. Það sé viðkvæmur hópur og komi lokunin harðast niður á þeim. Miklu máli skipti fyrir skjólstæðinga Hins hússins að halda rútínu sem muni sennilega reynast mikil áskorun á meðan Hitt húsið er lokað.