Erlent

Segja fanga hafa ráðist á R. Kelly

Stefán Ó. Jónsson skrifar
R. Kelly ásamt lögmanni sínum í dómsal í september í fyrra.
R. Kelly ásamt lögmanni sínum í dómsal í september í fyrra. getty/pool

Tónlistarmaðurinn R. Kelly, sem á yfir höfði sér lífstíðardóm vegna ótal ásakana um kynferðisbrot, er sagður hafa orðið fyrir árás samfanga síns á þriðjudag. Lögmaður Kelly segir í samtali við CNN að honum hafi verið tjáð að tónlistarmaðurinn hafi legið í rúminu í fangaklefa sínum þegar annar fangi vatt sér upp að honum og lét hnefana tala.

Kelly sætir margvíslegum ákærum í þremur ríkjum Bandaríkjanna fyrir kynferðisbrot, barnaníð, mannrán, mansal, mútugreiðslur, fjárkúgun og vörslu á barnaklámi. Hann var tvívegis handtekinn í fyrra og hefur verið í haldi lögreglunnar í Chicago í rúmt ár. Hann neitar sök og áætlað er að hann geri það aftur þegar hann verður leiddur fyrir dómara í september.

Fjölmiðlar vestanhafs hafa átt í erfiðleikum með að staðfesta að Kelly hafi orðið fyrir fyrrnefndri áras á þriðjudag. Lögmannateymi hans segist sjálft hafa fengið misvísandi upplýsingar um atburðarásina og hvort Kelly hafi slasast í átökunum. Einn lögmanna hans segir þó að fangaverðir hafi verið fljótir að stöðva árásarmanninn.

Lögmennirnir hafa varið síðustu vikum í að fá Kelly lausan svo hann geti tekið þátt í málsvörn sinni fyrir aðalmeðferðina í september. Þeir hafi ekki getað átt í neinum samskiptum við hann af ráði vegna strangra kórónuveirutakmarkana í fangelsinu í Chicago. Lögmennirnir hafi þannig ekki getað rætt við Kelly um hina meintu árás. Hvað sem henni líður telja lögmennirnir nauðsynlegt að losa hann úr haldi næstu vikurnar því líf hans sé í hættu.

Ákærurnar gegn Kelly hafa hlaðist upp á síðustu árum samhliða frásögnum tuga kvenna sem segja hann hafa brotið gegn sér, t.a.m. þegar þær voru á barnsaldri. Fari svo að R. Kelly verði dæmdur í öllum ákæruliðum má hann vænta þess að verja ævinni á bak við lás og slá.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×