Erlent

Ætla að senda geim­fara til suður­póls tunglsins árið 2024

Atli Ísleifsson skrifar
Ferðinni er heitið til tunglsins árið 2024.
Ferðinni er heitið til tunglsins árið 2024. NASA

Bandaríska geimvísindastofnunin NASA hefur kynnt áætlun sína um að senda menn til tunglsins í fyrsta sinn frá árinu 1972. Þetta verður fyrsta mannaða geimferðin til suðurpóls tunglsins og í fyrsta sinn sem kona verður um borð.

Artemis-áætlunin felur í sér að tveir geimfarar – einn maður og ein kona – verði send til tunglsins árið 2024.

„Við ætlum aftur til tunglsins til að gera vísindalegar uppgötvanir, efnahagslegs ábata og til að veita næstu kynslóð könnuða innblástur,“ sagði Jim Bridenstine, yfirmaður hjá NASA, í yfirlýsingu.

Áætlað er að Artemis-áætlunin muni kosta um 28 milljarða Bandaríkjadala, um 3.400 milljarða íslenskra króna, en Bandaríkjaþing þarf að samþykkja fjárveitingarnar. Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur sagt málið ofarlega á forgangslistanum.

Bridenstine sagði Artemis og tunglferðina 2024 vera á áætlun, svo fremi sem þingið samþykki fyrstu fjárveitingarnar, 3,2 milljarða dala, fyrir jól.

Áætlunin er í nokkrum liðum og hefst á ómönnuðu geimskoti geimfarsins Oríon í nóvember á næsta ári. Í öðrum og þriðja fasa áætlunarinnar er ætlunin að senda geimfara út í geim, ferðast umhverfis tunglið og lenda á yfirborði fylgihnattarins.

Samkvæmt áætlun á tunglferðin að fara í um viku, aðeins lengur en ferð Apollo 11 árið 1969 þar sem Neil Armstrong, Buzz Aldrin og Michael Collins lentu á yfirborði tunglsins, fyrstir manna. Þá er ætlunin að fram fari allt að fimm „afhafnir utan geimfarsins“.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×