Spánarmeistarar Real Madrid mörðu nafna sína í Valladolid í spænsku úrvalsdeildinni í kvöld með einu marki gegn engu. Þá gerðu Atletico Madrid markalaust jafntefli á útivelli gegn Huesca.
Real Madrid hefur byrjað tímabilið frekar rólega og hélt það áfram í kvöld þó liðið hafi landað sigri. Eftir markalausan fyrri hálfleik þá sá Vinicius Junior til þess að meistararnir færu heim með stigin þrjú er hann skoraði eina mark leiksins á 65. mínutu.
Lokatölur 1-0 og Real því með sjö stig að loknum þremur umferðum. Þó Real hafi byrjað tímabilið rólega er það samt sem áður taplaust.
Fyrr í dag gerðu nágrannar Real í Atletico markalaust jafntefli við Huesca en eftir að hafa unnið Granada 6-1 í síðustu umferð var reiknað með annarri flugeldasýningu. Hún kom ekki og Atletico því með fjögur stig eftir tvo leiki.
Tveir aðrir leikir voru í spænsku úrvalsdeildinni í kvöld. Villareal vann 3-1 sigur á Deportivo Alaves. Þá vann Elche 1-0 útisigur á Eibar.