Innlent

Lög­reglu­maður meðal þeirra 180 sem hafa nú greinst

Eiður Þór Árnason skrifar
Mikið álag hefur verið á veirufræðideild Landspítalans síðustu vikur.
Mikið álag hefur verið á veirufræðideild Landspítalans síðustu vikur. Vísir/vilhelm

180 einstaklingar hafa nú greinst með kórónuveiruna hér á landi samkvæmt tölum frá landlækni og Almannavarnardeild ríkislögreglustjóra.

Lögreglumaður í Vestmannaeyjum er meðal þeirra sem greindust síðdegis í dag. Unnið er að smitrakningu en ekki er talið að hann hafi smitast við störf sín. Um er að ræða fyrsta smitaða einstaklinginn í Vestmannaeyjum og eru þar nú átján í sóttkví.

Lögreglan í Vestmannaeyjum greinir frá þessu og segir að aðgerðastjórn almannavarna hafi verið virkjuð í bæjarfélaginu í kjölfarið.

Staðfestum smitum hefur fjölgað um sautján á landsvísu frá því í gær. Fram kom í kvöldfréttum Stöðvar 2 í kvöld að Íslensk erfðagreining hafi klárað að greina rúmlega eitt þúsund sýni og reyndust níu af þeim vera jákvæð.

Alls hafa 1.868 sýni verið tekin á vegum sóttvarnarlæknis fram að þessu og eru 1.761 einstaklingur nú í sóttkví. 180 eru í einangrun og þrír liggja á sjúkrahúsi, þar af einn á gjörgæslu. Langflestir sem hafa greinst með veiruna eru búsettir á höfuðborgarsvæðinu eða 165 af alls 180.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×