Óvíst er að Jóhann Berg Guðmundsson geti leikið með Burnley gegn Chelsea um helgina vegna kálfameiðsla, nú þegar sléttar tvær vikur eru í úrslitaleik Íslands og Ungverjalands um sæti á EM í fótbolta.
Jóhann meiddist í hné í byrjun þessarar leiktíðar og hefur aðeins leikið þrjá leiki í ensku úrvalsdeildinni í vetur, eftir að hafa sömuleiðis misst af stórum hluta síðustu leiktíðar vegna kálfameiðsla.
Jóhann náði þó að spila með íslenska landsliðinu í leiknum mikilvæga við Rúmeníu fyrr í þessum mánuði, og stóð fyrir sínu. Hann lék svo með Burnley gegn WBA 19. október og gegn Tottenham á mánudagskvöld, og var í byrjunarliðinu í báðum leikjum.
Á blaðamannafundi í dag greindi knattspyrnustjórinn Sean Dychy hins vegar frá því að kálfinn angraði Jóhann og að það yrði að koma í ljós á morgun eða á leikdegi hvort að hinn nýþrítugi kantmaður gæti spilað heimaleikinn gegn Chelsea á laugardaginn.
Til hamingju með daginn Jói!
— Knattspyrnusambandið (@footballiceland) October 27, 2020
Hann fagnar þrítugsafmæli sínu í dag!
Happy 30th birthday to our Jóhann Berg Guðmundsson!#fyririsland pic.twitter.com/MVHb9f8UNR
Burnley á svo eftir að spila við Brighton 7. nóvember áður en íslenski landsliðshópurinn kemur saman í Búdapest mánudagskvöldið 9. nóvember, til stutts undirbúnings fyrir leikinn sem ræður því hvort Ísland eða Ungverjaland spilar á EM næsta sumar.
Eftir leikinn við Ungverja spilar Ísland svo útileiki við Danmörku og England, sína síðustu leiki í A-deild Þjóðadeildarinnar í bili.