Mynd­bands­dómgæsla í brenni­depli er Bale tryggði Totten­ham sigur

Úr leik kvöldsins.
Úr leik kvöldsins. Tottenham Hotspur/Getty Images

Myndbandsdómgæsla leiksins fær fyrirsagnirnar en það var varamaðurinn Gareth Bale sem tryggði Tottenham Hotspur 2-1 sigur á Brighton & Hove Albion í síðasta leik dagsins í ensku úrvalsdeildinni.

Harry Kane kom heimamönnum í Tottenham yfir með marki úr vítaspyrnu á 13. mínútu. Upphaflega hafði dómari leiksins dæmt aukaspyrnu en eftir að atvikið var skoðað var ljóst að brotið - ef brot skyldi kalla - átti sér stað á vítateigslínunni. 

Kane bakkaði í rauninni undir Adam Lallana er sá síðarnefndi fór í skallabolta og hrundi í kjölfarið í jörðina. Er þetta ekki í fyrsta skipti sem Kane gerir þetta og margir á því að framherjinn sé þarna að svindla. Þá er óttast að hann geti stórslasað andstæðinga sína er þeir missa allt jafnvægi þegar Kane bakkar inn í þá.

Staðan því 1-0 og þannig var hún fram í síðari hálfleik. Þá jafnaði Tariq Lamptey metin með góðu marki en nokkuð ljóst var að Brighton hafði brotið af sér í aðdraganda marksins. Þó svo að dómari leiksins hafi farið í skjáinn góða á hliðarlínunni þá ákvað hann ekki að breyta ákvörðun sinni. Er hann fyrsti dómarinn á þessu tímabili sem gerir slíkt en hingað til hafa allir dómarar deildarinnar breytt dómi sínum eftir að fara í skjáinn.

Staðan orðin 1-1 en Brighton höfðu gert tilkall til vítaspyrnu fyrr í leiknum, þá var hins vegar ekkert dæmt. Það var svo á 73. mínútu sem varamaðurinn Gareth Bale skaut upp kollinum og skoraði sigurmark leiksins. Lokatölur 2-1 og sigurinn Tottenham-manna í kvöld.

Tottenham er nú komið í 2. sæti ensku úrvalsdeildarinnar, tveim stigum á eftir toppliði Liverpool.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira